Sveskju- og fíkjuterta – bæði ljúf og bragðgóð

Fikju-og sveskjuterta

Sveskju- og fíkjuterta. Allra vinsælasta uppskriftin á þessu bloggi frá upphafi er Sveskju- og döðluterta (þar á eftir kemur rabarbarapæið fræga). Þetta kemur svo sem ekkert sérstaklega á óvart, tertan er bæði ljúf og bragðgóð. Fyrir ekki svo löngu hitti ég konu sem fór að tala um Sveskju- og döðlutertuna, hún sagðist ekki hafa átt döðlur og notaði fíkjur í staðinn og tertan væri jafngóð ef ekki betri með þeim í. Sætabrauðsdrengirnir matheilu borðuðu hana upp til agna eftir tónleikana í gær og lofuðu í hástert.

-kona hringdi og bað mig að skýra betur út hvað ég ætti við með góðu dökku súkkulaði og góðri matarolíu. Sjálfur er ég hrifinn af um 70% dökku súkkulaði en ekki of sætu. Gjarnan nota ég 70% Síríus, Saveurs & Nature eða Green and Black´s. Í hráfæði nota ég alltaf extra virgin ólífuolíu.

Sveskju- og fíkjuterta

2 dl fíkjur (leggið í bleyti ef þarf)

2 dl  sveskjur

2 dl valhnetur

1 banani

2 dl kókosmjöl

safi úr 1/3 sítrónu

1/2 tsk vanillu extract – eða 1 tsk vanillusykur

1/3 tsk salt

2 msk kókosolía – fljótandi

1 msk góð matarolía

1 msk vatn

Saxið frekar smátt fíkjur, sveskjur, valhnetur og banana og setjið í skál – eða setjið í matvinnsluvél. Bætið út í kókosmjöli sítrónusafa, vanillu og salti. Blandið saman kókosolíu, matarolíu og vatni og setjið út í og hrærið vel saman. Látið í form, þjappið vel og kælið

 krem:

150 g gott dökkt súkkulaði

1-2 msk góð matarolía

Bræðið saman við lágan hita og hellið yfir kökuna.

Best finnst mér að setja kringlótt form beint á tertudisk, „deigið” ofan í og kremið á. Síðan er hún látin standa í nokkrar klst í ísskáp. Þá er heitum hníf rennt meðfram kökunni, formið tekið utan og voilà – dásamleg terta tilbúin

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *