Súkkulaðiterta með viðhöfn

Ferrero Rocherterta

Súkkulaðiterta með viðhöfn. Hneturnar og pralínið úr þeim gera þessa tertu að sérstakri upplifun. Stökkt kornfleksið saman við pralínsmjörið gerir fólk þannig á svipinn, að það virðist hafa komist til himnaríkis. Alla vega er þetta hátíðaterta með þremur kremum (!) og gott að hafa góðan tíma til að útbúa. En stundum er gaman að hafa mikið við, t.d. á jólum, páskum, stórafmælum eða brúðkaupum.

Súkkulaðiterta með viðhöfn

Svampbotn:

50 g kakó

200 g hveiti

325 g sykur

1 tsk lyftiduft

90 ml matarolía

6 eggjarauður

6 eggjahvítur

1/2 tsk borðedik

Nammi til að skreyta með

Pralín:

75 g flórsykur

150 g steiktar heslihnetur

1 msk matarolía

Kornfleks lag:

150 g 70% súkkulaði

45 g kornfleks

Vanillusmjörkrem:

4 hvítur

240 g sykur

2 g vanilla extrakt

225 g smjör, mjúkt

100 g súkkulaði

Súkkulaðibráð:

75 g 70% súkkulaði

50 g smjör

1 msk hunang

Stillið ofninn á 160°C. Setjið kakó í 200 ml sjóðandi vatn og kælið. Blandið saman í aðra skál hveiti, sykri, lyftidufti og svolitlu salti. Hrærið saman olíu og eggjarauður.  Blandið öllu saman, hveitiblöndu, rauðum og kakóblöndu. Þeytið eggjahvítur með ediki og blandið varlega við deigið. Smyrjið 10 cm hátt 23 cm form (setjið tvöfalt lag af bökunarpappír á barmana til að hækka það) og hellið deiginu í. Bakið í 35-40 mín. Þegar kakan er bökuð, setjið hana á hvolf á grind.

Pralín: Bræðið flórsykur við meðalhita í 1-2 mín. Hrærið saxaðar heslihnetur hratt saman við, setjið á bökunarpappír og salt yfir milli fingra. Kælið og setjið í matvinnsluvél í stutta stund, takið helminginn af og setjið í skál. Setjið olíuna í vélina og þeytið þar til það er orðið að smjöri.

Kornfleks lag: Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og blandið 2/3 af pralínsmjörinu saman við og síðan kornfleksi.

Vanillusmjörkrem: Setjið hvítur og sykur í glerskál yfir vatnsbað og þeytið þar til sykurinn er bráðinn og hvíturnar stífar. Takið af hitanum, blandið vanillu út í og látið kólna niður í herbergishita. Þeytið mjúkt smjörið út í smám saman. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og kælið í 6 mín. Blandið varlega saman við smjörkremið.

Skerið kökuna í þrjú lög. Breiðið helminginn af kornfleksblöndunni á neðsta lagið og 1/4 af smjörkreminu ofan á það. Endurtakið á næsta lag og þegar efsta kökulagið er komið ofan á, smyrjið afgangi af smjörkreminu ofan á og á hliðar (lítið í einu og leyfið að setjast á milli) og setjið í kæli í hálftíma.

Súkkulaðibráð: Bræðið súkkulaði, smjör og hunang yfir vatnsbaði. Hrærið afgang af pralíninu og kælið í herbergishita, en látið ekki setjast. Hellið yfir og skreytið með Ferrero Rocher. Skreytið með hnetunum sem eftir urðu þegar pralínið var búið til, í kring neðst.

Súkkulaðiterta með viðhöfn

Páskatertur síðustu ára:

Páskatertan 2014 var með döðlubotni, eggjakremi og marengs

Páskatertan 2013: Daim-ís-terta

Páskar 2012: Brownies á páskum (já, já ég veit að brownies er ekki terta…)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *