Kökudiskur eða fyrirdiskur

Kökudiskur vinstra megin við bollann - IMG_3913_3

Kökudiskur eða fyrirdiskur? Eða eitthvað allt annað?

Fríður skrifaði mér og sagðist alltaf þurfa að hugsa sig um þegar hún setti diskinn fyrir meðlætið við hliðina á bollanum.

Svarið er imbareglan: Viðhaldið til vinstri, þ.e. Vi-vi. Þannig er auðvelt að muna að kökudiskurinn eða hvað hann nú heitir, á að vera vinstra megin.

Í kjölfarið var sett fyrirspurn á fasbókina til að athuga hvaða nafn fólk hefði yfir þennan disk. Í minni barnæsku á Fáskrúðsfirði var alltaf talað um fyrirdisk. Aftur á móti var talað um  kökudisk á bernskuheimili Bergþórs í Reykjavík, en mamma hans var úr Hörgárdal og pabbi er úr Hvítársíðu í Borgarfirði.

Svör bárust alls staðar af landinu og margt fróðlegt kom upp úr dúrnum. Það er mjög misjafnt hvað fólk nefnir þennan disk og í raun ekki hægt að búa til reglu eftir landshlutum, en þó má heita að F-diskarnir séu nokkuð ráðandi á Austur- og N-landi allt vestur á sunnanverða Vestfirði, þ.e.

Fyrirdiskar - kökudiskar - IMG_8201

 

Fyrirdiskar

Fylgidiskar Þekkist víða á landinu.

Kökudiskur virðist algengastur SV-lands , a.m.k. frá Vestmanneyjum og upp á Akranes, en finnst þó alls staðar á landinu, t.d. á Flateyri og alloft á Akureyri.

N- og A-lands nefna margir að kökudiskar séu diskarnir sem hafðir eru undir kökurnar, sem Sunnlendingar nefna oft föt, tertuföt eða tertudiska. Kona ein á Héraði segir: „Ílangur kökudiskur var t.d. fyrir jólaköku eða aðra formköku. Nafnið kökudiskur er því dregið af því. Smákökudiskar voru oft rúnnaðir og aðeins djúpir, ég held að engum heima hefði dottið í hug að kalla þessa diska tertudiska.”

Svo koma fyrir dæmi um mörg önnur heiti, í bland við fylgidiska, fyrirdiska og kökudiska:

Hliðardiskur (víðast á landinu eru dæmi um það)

Meðdiskur (víða, t.d. á Vopnafirði, Þistilfirði, Siglufirði, Skagafirði, Ströndum, en fannst ekki sunnanlands),

Hjádiskur (A og N-lands)

Deserdiskur (Flóinn)

Lítill diskur (V-Hún. og Skaftaf.)

Lausadiskur (Akureyri og Hafnarf.)

Brauðdiskur (Skagaf.)

Gera má ráð fyrir að á heimilum hafi það heiti verið ráðandi sem húsfreyja hafði vanist, en þó eru oft notuð tvö eða fleiri heiti á heimili. T.d. segir einn svarenda: „Við töluðum um hjádiska og fylgidiska. Móðir mín var úr Ljósavatnsskarði og faðir minn úr Hjaltastaðaþinghá.“

Í athugasemdum kom margt fleira skemmtilegt fram. T.d. fékk ég skýringu á því að ég hafði heyrt diskinn undir bollanum, undirskálina, stundum nefndan undirbolla. Skýringin var þessi: „Algengt var að ef kaffið var mjög heitt, hellti fólk úr bollanum í undirbollann og saup/drakk af honum.“

Lengi má skemmta sér yfir tungumálinu og víst er að það er ekki gott að vera of fastur á sínu. Það sem maður sjálfur hefur vanist í bernsku er ekki endilega réttara en eitthvað annað. Í þessu efni þarf maður að hafa opinn huga eins og reyndar á flestum öðrum sviðum.

Ræðið, deilið, skrifið athugasemdir 🙂

Fyrirdiskur - DSC02333

One thought on “Kökudiskur eða fyrirdiskur

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *