Marengsrúlla – ljúffeng og ömmuleg

Marengsrúlla

Marengsrúlla. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hef ég hvatt til þess að borða hollt með því meðal annars að draga úr sykri. Það er ekki þar með sagt að við þurfum að sniðganga sætindi, verum bara meðvituð hvað við borðum. Þessi marengsrúlla bragðast afar vel og satt best að segja gleymdi ég alveg að vera meðvitaður þegar ég komst í hana…. Átta ára stúlka fékk sér sneið og sagði að hún væri svo ljúffeng að það væri eins og einhver amma hefði bakað hana.

Marengsrúlla

Marengsrúlla

4 eggjahvítur (stórar)

3 dl púðursykur

hjartarsalt á hnífsoddi

1 1/2 bolli Rice Crispies

Fylling

1 1/2 – 2 pelar rjómi

1 bolli fersk jarðaber, skorin í bita

1 bolli fersk bláber

2-3 Snickers, skorin í bita

50 g súkkulaði

Þeytið eggjahvítur og púðursykur mjög vel saman, bætið hjartarsalti út í.

Setjið rice crispies varlega saman við þegar eggjahvíturnar eru þeyttar að fullu.

Smyrjið á bökunarpappír, passið að nota bökunarplötu undir og bakið við 135°C í u.þ.b. 50 mín. Látið kólna.

Þeytið rjómann og smyrjið á marengsinn. Stráið Snickersi, bláberjum og jarðarberjum jafn yfir (takið nokkur ber frá til að skreyta með í lokin). Rúllið marengsinum varlega upp. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði, hellið því yfir í mjórri bunu og skreytið með berjum.

1966

Þessi ljúffenga ömmulega rúlluterta sem Sigurbjörg kom með, var á boðstólnum þegar við hittumst nokkur úr grunnskóla og rifjuðum upp gamla daga 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *