Veislustjórar – nokkrir gagnlegir punktar sem gott er að hafa bak við eyrað

Tækifærisræður brúðkaup ferfalt húrra veislustjórar símar saga garðarsdóttir gifting ísbrjótar skálað skála ræða ræður skemmtilegar mannasiðir
Veislustjórapunktar – Saga Garðarsdóttir stóð sig með mikilli prýði þegar við giftum okkur og stjórnaði veislunni af röggsemi.


Veislustjórar. Það fylgir því ábyrgð að vera veislustjóri. Ef vel tekst til er það bæði skemmtilegt og gefandi en guð hjálpi okkur ef illa tekst upp…

Til að allt gangi snurðulaust fyrir sig skiptir undirbúningurinn miklu máli. Ætli megi ekki líkja veislustjóra við sýningarstjóra í leikhúsi. Það má líka segja að hann sé tengiliðurinn í veislunni – hann tengir alla saman. Veislustjórinn stjórnar veislunni (er í raun „verkstjóri” veislunnar) og hefur augu á hverjum fingri. Hér eru nokkur atriði sem góður veislustjóri þarf að hafa í huga:

Undirbúningsfundur með veislustjóra

Til að allt komist til skila þurfa gestgjafarnir að halda fund(i) með veislustjóra og fleirum og passa að lítil og stór atriði komist til skila.

Matur – skemmtiatriði – skálað – tónlist….

Veislustjóri þarf að stjórna veislunni í samvinnu við þjónana og kokkana. Fara þarf yfir þau mál með góðum fyrirvara. Það þarf að ákveða hvenær borðhald byrjar, í hvaða röð borðin eiga að standa upp og sækja matinn og fleira. Þá getur eitt og annað komið upp á í veislunni sjálfri sem þarf að taka ákvarðanir um því aðalrétturinn „verður” að fara inn á hárréttum tíma eða annað slíkt.

Símar

Við eigum það til að gleyma okkur í símanum þó við séum í veislu og höldum að samferðafólkið verði að vita hvað við erum að gera frá einni mínútu til annarrar.  Enn eitt hlutverk veislustjórans er að koma í veg fyrir, eins og hægt er, að fólk hangi ekki á netinu. Gestir eru komnir til að samgleðjast og sinna internetinu síðar. Þetta er vandmeðfarið – kannski best að fara hér í gríngírinn.

Skálað

Veislustjórinn þarf að gæta þess að ekki sé skálað í tíma og ótíma. Þó gaman sé að skála má öllu ofgera. Ef margar ræður eru fluttar gengur ekki að þær endi allar með því að lyfta glösum. Á Íslandi hrópum við FERFALT HÚRRA – passa verður að slíkt gerist ekki oftar en einu sinni.

Óvæntar uppákomur

Veislustjóri verður að hafa í huga að það líkar ekki öllum við óvæntar uppákomur. Sumir vilja hafa allt niðurneglt og skipulagt og þá ber að virða það. Við megum ekki koma gestgjafanum í uppnám.

Hljóðkerfi og tæknimál

Raddir okkar berast mis vel og fólki lætur mis vel að tala fyrir framan aðra. Sé því viðkomið er gott að hafa hljóðkerfi. Bæði fyrir veislustjórann og fyrir þá sem vilja halda ræður. Oft eru hljóðkerfi í sölum einungis gerð fyrir talmál. Ef það á að vera lifandi tónlist og/eða plötusnúður þarf hljóðkerfi sem er nægilega öflugt fyrir það. Svo geta skjávarpar verið duttlungafullir og engu líkara en þeir hafi sjálfstæðan vilja. Góður tæknimaður er gulls ígildi – en hann þarf að vita hvað er á dagskrá svo hann geti undirbúið sig og vitað til hvers er ætlast af honum.

Tónlistaratriði

Sumt fólk ætlar sér stundum of mikið. Veislustjórinn stjórnar hér eins og víðar. Hann ber ábyrgð á því að t.d. tónlistarfólkið flytji ekki of mörg lög. Eitt til tvö vel valin lög nægir.

Ísbrjótar

Enn eitt sem veislustjórinn þarf að huga að eru „ísbrjótarnir”. Hér reynir á. Í giftingarveislu okkar Bergþórs bað veislustjórinn(sjá myndina hér að ofan) fólk að gefa sig á tal við fjóra einstaklinga sem það hafði ekki talað við áður.

Maður er manns gaman

Fólk hefur ánægju af því að spjalla við mann og annan. Veislustjórinn setur dagskrána þannig upp að fólk fái tíma milli atriða til að spjalla við veislugesti. Eftir of mörg samfelld atriði aukast líkur á því að fólk byrji að spjalla þó ræður eða skemmtiatriði séu ennþá í gangi.

Myndbönd

Oft eru sýnd myndbönd, t.d. í brúðkaupsveislum og stórafmælum. Veislustjórinn lætur sig þau mál varða líka. Hann minnir á að óklippt og löng myndbönd geta misst marks meðan stutt og hnitmiðuð halda fólki við efnið. Það þarf að fá einhvern til að bera ábyrgð á tæknimálum, þeir sem sýna myndbönd koma sér í samband við viðkomandi, mæta áður en veislan byrjar og athuga hvort búnaðurinn virki til að tryggja að sýningin gangi hnökralaust fyrir sig.

Tækifærisræður

Þær þarf að undirbúa vel. Stundum þarf að finna ræðufólk og biðja það með góðum fyrirvara að segja nokkur orð. Svo þarf að setja fólki tímaramma, biðja það að æfa sig vel, koma annað hvort með skrifaða ræðu eða minnispunkta. Stuttar ræður með léttu ívafi, ef það á við, eru bestar. Allt þetta er á könnu veislustjórans. Hann þarf jafnframt að fá nokkra punkta um ræðufólkið til að kynna það.

Stemningin

Veislustjórinn er sjaldnast aðalatriðið. Hann þarf þó að vera tilbúinn að grípa inn í ef stemningin dalar og hafa stuttar skemmtilegar sögur, brandara eða annað á takteinum.

Endirinn

Veislustjórinn endar veisluna með því að þakka þeim sem komu fram og með því að þakka fyrir sig.

Tækifærisræður

Ísbrjótar í boðum

Skálað 101

VEISLUSTJÓRANEI

BORÐSIÐAFÆRSLUR

.

— VEISLUSTJÓRAR – GAGNLEGIR PUNKTAR  —

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.