Hollenskir möndluklattar – Gevulde koek

Hollenskir möndluklattar – Gevulde koek, Bergdís Ýr GUÐMUNDSDÓTTIR Heimir orri magnússon holland hollenskur matur möndlur klattar smákökur
Hollenskir möndluklattar – Gevulde koek

Hollenskir möndluklattar – Gevulde koek

Klattarnir eru klassískt hollenskt bakkelsi, fást í hverju bakaríi og skipa svipaðan sess og „scones” í Englandi og „chocolate chip cookie” í Bandaríkjunum. Bergdís frænka mín var nýlega í Amsterdam og fékk dýrindis möndluklatta á kaffihúsi einu. „Þegar ég borðaði klattann rifjaðist upp fyrir mér að í þau tvö fyrri skipti sem ég hef komið til Hollands þá var ég sérstaklega hrifin af þessum klöttum.

Þar sem við Heimir erum mjög hrifin af öllu bakkelsi sem er með möndlum þá fór ég í rannsóknarvinnu þegar ég kom heim og hafði upp á kökunum á netinu og prófaði nokkrar uppskriftir til að finna hina fullkomnu möndluklatta. Hér eru þeir, unaðslega seigmjúkir að innan með hrjúfu ytra byrði.”

#2017Gestabloggari 43/52HOLLANDBERGDÍS ÝrSMÁKÖKUR

.

Albert, Bergdís
Albert og Bergdís. Mynd: Heimir Orri

Hollenskir möndluklattar – Gevulde koek

Möndlufylling:

125 möndlur
125 gr sykur
1 egg
1 tsk rifinn sítrónubörkur (minna eða meira eftir smekk)
1 tsk möndudropar (minna eða meira eftir smekk)

Klattadeigið:

300 gr hveiti
200 gr smjör, kalt og skorið í bita
150 gr sykur

Ofan á klattana:

1 egg
12 möndlur

Hitið ofninn í 175 °c

Möndlufylling – aðferð:

Setjið vatn í pott og setjið möndlurnar út í þegar vatnið nær suðu. Takið pottinn af hellunni. Leyfið möndlunum að vera í pottinum í nokkrar mínútur, sumar þeirra fljóta upp þegar hýðið hefur losnað frá möndlunum en aðrar liggja við botninn. Hellið úr pottinum í sigti og leyfið möndlunum að kólna aðeins áður en þið afhýðið þær með höndunum. Til að auðvelda ykkur þetta skref má vitanlega kaupa hýðislausar möndlur sem eru þó aðeins dýrari kostur.

Setjið möndlurnar í matvinnsluvél (ég notaði Nutribullet) með sykri, eggi, sítrónuberki og möndludropum. Ágætt er að byrja á að setja minna magn af sítrónuberki og möndludropum en gefið er upp þar sem smekkur manna er misjafn. Mér finnst mikilvægt að setja ekki of mikið af sítrónuberki því hann á það til að yfirgnæfa möndlubragðið, en þó nóg til þess að lyfta aðeins upp möndlubragðinu. Hér dugar aðeins eitt ráð  að smakka ☺

Setjið fyllinguna í sprautupoka þegar hún er orðin seigfljótandi (ég nota stundum rennilásapoka ef ég á ekki sprautupoka) og geymið á meðan þið gerið klattadeigið.

Klattadeigið – aðferð:

Hveiti og sykur hrært saman í stórri skál. Smjörið sett út í skálina og það “klipið” saman við hveiti-sykurblönduna þar til úr verður þykkt deig. Ágætt er að hnoða aðeins deigið á eldhússbekknum þegar það er farið að haldast saman. Hér bleyti ég aðeins fingurna með vatni ef mér finnst deigið of þurrt og henti örlitlu hveiti á eldhúsbekkinn og hnoða upp úr því ef mér finnst deigið of blautt. Deigið á að hanga vel saman því í næsta skrefi er það flatt út með kökukefli, minnir eilítið á piparkökudeig.

Deigið er þá flatt út í nokkrum umferðum þar sem erfitt er að vinna með allt deigið í einu. Passið að hafa deigið ekki of þunnt því þá er erfitt að vinna með klattana. Sáldrið örlitlu hveiti undir og yfir deigið svo það festist síður við kökukeflið og eldhúsbekkinn. Skerið út með hringlaga formi (ca. 7-10 cm í þvermál) og raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Einföld uppskrift gefur tólf klatta, svo útskornir hringir verða 24 stk. Þegar þið hafið raðað tólf hringjum á bökunarplötu þá sprautið þið möndlufyllingunni á þá útfrá miðjunni, en passið að fyllingin þekji hringinn ekki að öllu leyti. Raðið svo þeim tólf hringjum sem eftir eru ofan á möndlufyllinguna. Ágætt er að bleyta puttana með vatni og pressa barma deighringjanna niður, eins og tyil að koma í veg fyrir að möndlufyllingin leki út úr klattanum. Að þessu loknu er ein mandla sett ofan á hvern klatta (með eða án hýðis, allt eftir ykkar mati). Sláið saman egg í skál og berið á hvern klatta með bursta. Bakið í 25 mínútur á blæstri. Ef klattarnir verða ekki gullinbrúnir á þeim tíma er þjóðráð að hækka vel í ofninum í stutta stund til að fá fallegt útlit á klattana (fylgist þó vel með svo þeir brenni ekki).

Leyfið klöttunum að kólna, þeir eru bestir kaldir (þá nýtur möndlubragðið sér vel). Þeir eiga mjög vel við með kaffi, te eða kaldri mjólk.

.

#2017Gestabloggari 43/52HOLLANDBERGDÍS ÝrSMÁKÖKUR

HOLLENSKIR MÖNDLUKLATTAR

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.