Bessastaðaterta frá forsetatíð Kristjáns og Halldóru Eldjárn

Bessastaðaterta frá forsetatíð Kristjáns og Halldóru Eldjárn. Vilborg systir mín var aðstoðarráðskona á forsetasetrinu síðasta ár Kristjáns Eldjárns í embætti og vann þar fyrstu mánuði Vigdísar. Ég fór einu sinni í heimsókn þegar hún var að vinna á Bessastöðum og mér fannst þetta eins og höll – þarna var ég ekki orðinn táningur. Held það sé í lagi að segja frá því núna að ég svalaði forvitni minni vel með því að skoða allt húsið hátt og lágt og naut þess í botn. Man eftir að hafa farið í vínkjallarann undir eldhúsinu, niður þröngan stiga, þar sem  einu sinni var fangelsi. Í kjallaranum voru rimlar fyrir litlu gluggunum og metersþykkir veggir (eins og allstaðar í húsinu) og svo mátti enn sjá hlekki í útveggnum. Í eldhúsinu man ég að voru stórar tréskúffur með mat í, ein var full af rúsínum….

#2017Gestabloggari 46/52

Vilborg, Sigrún, Halldóra og Kristján

Vilborg Eiríksdóttir og Sigrún Pétursdóttir í eldhúsinu á Bessastöðum

Sigrún Pétursdóttir var ráðskona á forsetasetrinu alla forsetatíð Kristjáns. Til er frásögn af fyrsta kaffiboðinu á Bessastöðum eftir vígslu Kristjáns. Haldin var hátíðarmessa í Dómkirkjunni í tilefni vígslu nýs forseta. Við undirbúninginn á forsetasetrinu var gert ráð fyrir að 50-70 manns kæmu í þangað eftir messuna. Þegar messan hófst var ljóst að helmingi fleiri voru mættir og mundu mæta í kaffisamsætið. Til að gera langa sögu stutta þá fengu allir gestirnir kaffi og með því en auðvelt er að ímynda sér stressið sem var á Bessastöðum þennan dag.

Sigrún bakaði þessa hátíðlegu tertu við sérstök tilefni, sennilega þegar tigna gesti bar að garði.

 

Bessastaðaterta frá forsetatíð Kristjáns og Halldóru Eldjárn. Ath. stór hátíðarterta! (uppfærð af VE)

Svampbotn:

4 egg

2 dl sykur

1 ½ dl hveiti

½ dl kartöflumjöl

½ tsk lyftiduft

Egg og sykur þeytt létt og ljóst, restin sett útí. Bakað í stóru móti (34 cm) 175-200°C í 10-15 mín.

Brúnt krem:

3 eggjarauður

2 msk sykur

100 gr. súkkulaði, brætt og kælt og hrært í á meðan.

1 peli (2 ½ dl) þeyttur rjómi

Rauður og sykur þeytt mjög vel þar til létt og ljóst. Bráðnu súkkulaði er hellt gætilega útí. Eggjasósu og þeyttum rjóma er svo blandað gætilega saman.

Marengsbotn:

250 gr. sykur

5 eggjahvítur

1 ½ tsk lyftiduft

þeytt mjög vel og bakað við 130 °C í 60 mín

Þeyttur rjómi (3-4 dl svo hann nái að þekja marengsinn vel)

Krem yfir:

3 eggjarauður

1 msk sykur

50 gr. súkkulaði

1 msk þeyttur rjómi

Samsetning:

Kremi (nr2) er smurt á tertubotninn.

Marengsinn settur þar ofan á og yfir hann er smurt lagi af þeyttum rjóma (gert daginn áður).

Að lokum er krem (nr 5) sett ofan á rjómann.

Á hliðar tertunnar er sprautað þeyttum rjóma. Þar að auki má auðvitað skreyta að vild.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *