Hver er leyndardómurinn að lífshamingjunni, eilífðri æsku og endalausri orku? 

Fallega grænt salat skreytt með bláklukkum bláklukkur salat grænmeti allt er það vænt sem vel er grænt
Fallega grænt salat skreytt með bláklukkum

Hver er leyndardómurinn að lífshamingjunni, eilífðri æsku og endalausri orku? 

Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur skrifað mjög fróðlegan pistil á síðunni sinni: Hver er leyndardómurinn að lífshamingjunni, eilífðri æsku og endalausri orku? Er allt vænt sem vel er grænt? 

Elísabet og Albert

Ég hef svo oft skrifað um það hversu mikilvægt það er að temja sér gagnrýna hugsun og velja af skynsemi það sem við teljum að sé okkur hollt og gott. Einnig hvernig við eigum ekki gagnrýnislaust að trúa öllu því sem við lesum á netinu eða í fjölmiðlum, eða gleypa athugasemdalaust við öllum þeim fæðubótaefnum sem auglýst eru með yfirlýsingum um bætt og betra líf ef aðeins við hlaupum til og kaupum. 

Á fyrirlestrum sem ég hef haldið um næringu og heildræna nálgun bendi ég áheyrendum mínum gjarnan á þá staðreynd, að þegar ávöxtum og grænmeti er bætt inn í daglegt mataræði, erum við mögulega að lengja líf okkar um mörg ár, á sama tíma og við aukum líkurnar á að fyrirbyggja hina ýmsu sjúkdóma. Þannig aukum við lífsgæði okkar svo um munar. En hér þurfum við líka aðeins að temja okkur gagnrýna hugsun varðandi það hvernig við borðum og hversu mikið. Sumir þola nefnilega ávexti ekki vel og aðrir ekki hrátt grænmeti. 

Á veraldarvefnum finnum við urmul greina og upplýsinga um safaföstur og námskeið um heilsubætandi áhrif grænna safa. Rannsóknir hafa sannarlega sýnt fram á þá staðreynd, að rífleg neysla grænmetis og ávaxta dregur úr hættu á hinum ýmsum tegundum krabbameina, hjarta- og æðasjúkdóma, ásamt því að minnka líkur á offitu. Þá er mikil og regluleg neysla þessara fæðutegunda talin koma í veg fyrir öldrun og auðvelda meltingu. En hér eru töfraorðin að borða þ.e. að tyggja matinn, ekki sitja með krús og rör og sötra. Í grænum söfum er oft notað töluvert af spínati, grænkáli, klettasalati og öðru grænu grænmeti. Dökkgrænt og laufmikið grænmeti og kál af ættkvísl jurta af krossblómaætt (lat. brassicaeceae, á ensku cruciferous) er sannarlega hollt til neyslu með öllum sínum andoxunarefnum. En spínat og annað laufmikið, grænt grænmeti  inniheldur aftur á móti einnig svokallaða oxalsýru.

En hver er áhættan af því að drekka of mikið af grænum söfum?

Oxalsýra en neyslu hennar viljum við stilla í hóf. 

Grænmeti inniheldur oxalsýru sem bindur sig m.a. við kalk og járn í líkamanum og kemur í veg fyrir að líkaminn nái að fullnýta sér þessi mikilvægu steinefni. Þegar oxalsýra bindur sig við kalk getur það valdið nýrnasteinum, magnað upp sársaukann sem fylgir þvagsýrugigt og valdið slæmum liðverkjum. 

Margir einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma, þvagsýrugigt eða liðagigt, ættu því markvisst að gæta hófs þegar kemur að neyslu á mat sem inniheldur oxalsýru. Oxalsýra hefur einnig verið tengd við skjaldkirtilssjúkdóma, leggangasviða (vulvodynia), slímseigjusjúkdóm (cystic fibrosis), sarklíki (sarcoidosis) og astma.

Ef allt er eðlilegt brotnar oxalsýra niður í hæfilegu magni í meltingarkerfinu og skilst úr líkamanum með hægðum. Þeir sem þjást af meltingarfærasjúkdómnum Crohn´s, iðraólgu, glútenofnæmi eða óþoli, magabólgum, krónískum niðurgangi og öðrum meltingartengdum sjúkdómum, geta aftur á móti átt erfitt með að melta og flytja oxalsýruna út úr líkamanum. 

Ég sem næringarfræðingur mæli með því að við neytum ekki meira en 250 mg af oxalsýru á dag. Til viðmiðunar inniheldur einn bolli af spínati u.þ.b. 656 mg af oxalsýru. Við setjum oft miklu meira magn af dökkgrænu grænmeti en þetta út í blenderinn eða safapressuna þegar við búum okkur til grænan safa eða boost, ekki satt? Það þýðir, að þegar við drekkum tvö eða fleiri glös af grænum söfum á dag – eins og t.d. gerist þegar við erum á safaföstu eða sérstökum hreinsikúr – erum við að fá mun meira af oxalsýru en ráðlagður dagskammt segir til um. 

Það sem hjálpar við niðurbrot oxalsýru

Sumar gerðir góðra bakteríugerla hjálpa til við niðurbrot oxalsýru í fæðu og með því að neyta mjólkursýrugerla og gerjaðs matar sem inniheldur góðgerla, hjálpum við líkamanum við að melta fæðuna og komum þannig í veg fyrir uppsöfnun oxalsýru í líkamanum. 

Annað vandamál við það að borða – eða drekka – of mikið af grænmeti, er að það getur innihaldið náttúruleg eiturefni og aðskotaefni. Þungamálmurinn thallium er t.d. aðskotaefni sem af einhverjum ástæðum vill safnast sérstaklega fyrir í grænmeti af krossblómaætt. Ofneysla á thallinum getum valdið vandamálum eins og hjartsláttatruflunum, ógleði, niðurgangi,  taugaverkjum, heilaþoku og meltingarvandamálum. 

Grænmeti af krossblómaætt inniheldur náttúrulega eiturefnið glúkósainólöt, sem kemur í veg fyrir upptöku skjaldkirtilsins á joði. Joð er gríðarlega mikilvægt fyrir heilbrigði skjaldkirtils, en til að okkur líði sem best – andlega og líkamlega – þarf þetta fiðrildalagaða líffæri framan á hálsinum einmitt að vera í góðu jafnvægi. 

Matvæli sem eru óæskileg fyrir skjaldkirtilinn eru nefnd „goitrogens“. Orðið „goiter“ merkir skjaldkirtilsauki, eða stækkun skjaldkirtils vegna joðskorts. Spergilkál, hvítkál, blómkál, grænkál, rósakál, hnúðkál, sinnep/sinnepkál, radísur, rófur, næpur og soja innihalda mikið af „goitrogens“. Of mikil neysla á t.d. hráu spínati, getur þannig stuðlað að vanvirkni skjaldkirtils. Einkennin eru t.d. þyngdaraukning, hárlos, orkuleysi, þreyta, þunglyndi, blóðleysi og bæling ónæmiskerfisins. Þeir sem eru greindir með vanvirkan skjaldkirtil, ættu þannig alveg sérstaklega að gæta hófs þegar kemur að neyslu á hráu spínati og öðru grænmeti sem ríkt er af „goitrogens“. 

Melting 

Margir þeir sem borða mikið af hráu grænmeti eiga ekki í neinum vandræðum, á meðan aðrir finna fyrir hægðartregðu og uppþembu svo eitthvað sé nefnt. Með því að sleppa grænum söfum og hráu grænmeti og borða grænmetið frekar gufusoðið og sem salat eða meðlæti, geta vandamál með meltinguna lagast heilan helling og þess hef ég séð mörg dæmi hjá skjólstæðingum mínum. Þá hentar það mörgum betur að sleppa laufmikla grænmetinu alfarið og borða frekar sterkjuríkt rótargrænmeti eins og gulrætur, rauðrófur og sætar kartöflur, og þá annað hvort gufusoðið eða bakað í ofni. 

Að þessu öllu sögðu, þýðir þetta að við þurfum að forðast grænmeti og þá sérstaklega kál, algjörlega? Alls ekki! Sem næringarfræðingur mæli ég alltaf 100% með því að við höldum grænmeti, þ.m.t. hinum ýmsu káltegundum, inn í okkar reglulega mataræði, ásamt rótargrænmeti og  ávöxtum. Borðum endilega fjölbreytta fæðu. Ef óþol eða önnur óþægindi út frá meltingunni fara að segja til sín, leitið til fagaðila, því eins og þið sjáið getur það eitt að nærast,verið örlítið flókið.

Þá mæli ég alltaf með því að velja íslenskt ræktað grænmeti því það er talið innihalda minna af rotvarnarefnum en það erlenda. Eins mæli ég alltaf með lífrænt ræktuðu grænmeti fram yfir það sem ræktað er á „hefðbundinn“ hátt, ef því verður við komið, og þá alls ekki síst þegar við útbúum græna safa. Spínat og grænkál sem ræktað er á „hefðbundinn“ hátt, inniheldur oft mikið magn af toxísku skordýraeitri sem við viljum vera laus við, og lífrænt ræktað grænmeti inniheldur minna magn þungamálma eins og thallium. 

Það er nefnilega með grænmetið eins og allt annað; við verðum að vera skynsöm. Í þeim er andoxunarefni og jurtaefni sem eru talin hafa heilsufarslegan ávinning og það er ástæða þess að okkur er ráðlagt að borða um 500 grömm af grænmeti og ávöxtum á dag.

Til að svara spurningunni um hvað þarf að gera til að finna lífshamingjuna og eilífða æsku þá er svar mitt einfalt; reynið að lifa heilbrigðu lífi og hugsa eins vel um andlega og líkamlega heilsu og ykkur er fært. Leikum okkur endilega sem mest og oftast og njótum þess að vera til. Heilbrigði er mun mikilvægara en það að vera mjó eða grannur. Síðast en ekki síst; munum að brosa☺ 

ÞVAGSÝRUGIGTELÍSABET REYNISDÓTTIR

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.