Hrísgrjónagrautur á laugardegi – skotheld aðferð til að gera grautinn silkimjúkan

Hrísgrjónagrautur Hrísgrjónagrautur. Öll búskaparár foreldra minna hefur hrísgrjónagrautur verið á borðum í hádeginu á laugardögum. Við systkinin reynum hvað við getum að viðhalda þessum sið og skiptumst á að elda grautinn og bjóða heim og í dag var komið að mér.

Aðferðirnar við að elda góðan graut eru eflaust margar og engin ein rétt(ust). Aðferð mína má rekja til Þýskalands. Hún er sú að setja grjónin í pott ásamt mjólk, sykri og salti. Suðan er látin koma upp á lágum hita á 45-60 mín. Þá er slökkt undir, pottinn einangraður vel með handklæðum eða öðru og hann látinn standa þannig í a.m.k. þrjár klst.(moðsuða). Rétt áður en grauturinn er borinn á borð er hrært í.  Grjónin voru sett í pottinn klukkan átta í morgun. Það er engin hætta á að grauturinn brenni við, það þarf ekki að standa yfir honum og hræra stöðugt í. Og síðast en ekki síst, þarf mun minna af grjónum – aðeins einn dl á móti lítra af mjólk.  Sumir sjóða grjónin fyrst í vatni og bæta eftir það mjólkinni saman við, en vatns/mjólkurgrautur er ekki alveg nógu spennandi.

Ég hvet ykkur til að prófa þessa aðferð næst þegar þið eldið hrísgrjónagraut.

Hrisgrjonagrautur

Hrísgrjónagrautur

1 l mjólk

1 dl. grautarhrísgrjón

1 msk sykur

1 tsk salt

Setjið allt í sæmilega stóran pott. Látið suðuna koma upp á mjög lágum hita (á 45-60 mín), hrærið við og við í á meðan. Slökkvið undir pottinum þegar suðan er komin upp, einangrið pottinn vel t.d. með handklæðum og látið standa þannig í amk þrjár klst.

Eftir þrjár klst er grauturinn tilbúinn, silkimjúkur og fínn.

Hrísgrjónagrautur

5 thoughts on “Hrísgrjónagrautur á laugardegi – skotheld aðferð til að gera grautinn silkimjúkan

    • Elda aldrei grjónagraut öðruvísi en í mjólk –
      finnst ekkert varið í “vatnsgrautinn” –
      enda er grauturinn vinsæll hér eftir því 😉

  1. Ég þarf að prófa þessa aðferð, hefur þú prófað að nota brún grjón og þessa aðferð? Ég nota þau oft í grjónagraut en veit ekki hvernig þau verða með þessari aðferð

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *