Edda Björgvins, einstakur gleðigjafi heldur matarboð

Edda Björgvins – einstakur gleðigjafi. Edda Björgvinsdóttir stórleikkona hefur glatt þjóðina í áratugi og er hvergi nærri hætt. Hún hefur örugglega komið oftar fram í Áramótaskaupum og skemmtiþáttum en nokkur annar. Edda bauð góðum vinum sínum í „létta veislu” eins og hún orðaði það sjálf. Hún lék á alls oddi, sagði okkur frá því að í sumar verður frumsýnd kvikmynd sem hún leikur í og í haust fer hún með eitt af aðalhlutverkunum í nýju leikriti Ragnars Bragasonar sem sýnt verður í Þjóðleikhúsinu. Auk þess ferðast hún um og heldur óborganlega skemmtilega fyrirlestra. Já svo er hin orðheppna Bibba aldrei langt undan (SJÁ MYNDATEXTA NEÐST).

#2017Gestabloggari 22/52

PARMESAN OSTAKARTÖFLUR MARGRÉTAR

1 kg. íslenskar fallegar Þykkvabæjarkartöflur (bestar ef þær eru smáar)

60 – 70 g smjör

2 b mjög fínt rifinn parmesan ostur (má vera þessi tilbúni rifni úr stauk)

Himalaya salt og mulinn pipar

hvítlauksduft.

Smyrjið eldfast fat að innan ríflega með smjöri og stráið svo nokkuð þykku lagi af Parmesan ostaduftinu neðst í fatið. Saltið og piprið og stráið hvítlauksduftinu líka yfir ostinn. Skerið kartöflurnar í tvennt og raðið í fatið með sárið niður. Bakið við 180 gráður í hálftíma til klukkutíma – fer eftir ofnum og hvort notaður sé blástur.

Hvíta hættan – hvítlaukssósa. Dásamlegu Parmesan ostakartöflurnar hennar Margrétar eru svo borðaðar með hvítu hættunni sem er sýrður rjómi hrærður saman við kraminn japanskan hvítlauk (kúlurnar í litlu barstkörfunum) og blandið agave sírópi útí. Má skella smá majonesi útí til að mýkja aðeins bragðið. Magn er mjög frjálslegt. Ég nota eina svona hvítlaukskúlu útí eina dós af sýrðum rjóma og ca. eina til tvær matskeiðar af Agave sírópinu (má vera meira eða minna)

Salatið með kartöflunum

BIBBA: “Félag efri borgara sem þið sjáið á myndinni var á Þorrablóti sem er orðinn að árlegu viðbjóði hjá þeim þarna Sontra systrum og sendu þau öll kveðju í óskalagaþátt framliðinna sem er ennþá í útvarpinu og fleiri hlusta á en vilja! Verði ykkur að góðu með brjóstsviða og bjúg!”

Ragnhildur Gísladóttir, Valgerður Matthíasdóttir, Albert Eiríksson, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Guðný Halldórsdóttir, Bergþór Pálsson og Edda Björgvinsdóttir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *